Monday, July 11, 2011

svitnað í sveitinni

allskonar ferðalög hafa einkennt síðust daga mína hér í rúmeníu.

ég skrapp aftur niður að svartahafi til að fara á jamiroquai tónleika á mamaia ströndinni, við ana-maria fengum svo far með sturluðum manni sem skutlaði okkur og fleirum yfir á aðra strönd fyrir smáaura. hann keyrði mini-bus, reykti, sendi sms, hringdi símtöl og stoppaði á miðjum vegi til að spjalla við leigubílstjóravin milli þess sem hann dillaði sér við manele (rúmenskt-sígauna-ruslpopp). þegar þangað var komið rétt eftir miðnætti vorum við glorsoltnar og húsnæðislausar en allt saman reddaðist það á endanum.

átti svo indælis viku í búkarest í góða veðrinu, sá brúðuleikhúsuppfærslu af lísu í undralandi, og fleira skemmtilegt.

á föstudag þáði ég svo boð í sveitina í brúðkaup. tók grínlega lest fulla af peasants (er til íslenskt orð?) sem hámuðu í sig sólblómafræ, en ég hef gleymt að taka fram að það er þjóðarsport rúmena, og nánar tiltekið sólblómafræ í skelinni, svo þau hakka þetta í sig og eru komin með ansi góða tækni við að ná fræinu út og skyrpa skelinni svo út úr sér hér og þar um borgina svo allstaðar má sjá ummerkin.

í sveitinni tóku á móti okkur krúttlegar ömmur og indælis skyldmenni upp til hópa. matur og nóg af bjór. á laugardeginum var steikjandi hiti og alls ekki kjörinn dagur til brúðarveislu en herlegheitin hófust í garðinum á heimili brúðhjónana þar sem slegið hafði verið upp tjaldi og skreytingum. þar var komið með lítið grenitré sem brúðurin og fleiri hjálpuðust að við að skreyta með músastigum og pappírsblómum í öllum regnbogans litum. því næst var náð í brauðhleif og vínglas sem haldið var ofan á höfði brúðarinnar sem braut af brauðinu, dýfði því í vínið og borðaði, tók því næst nokkra gúlsopa af víni og spýtti á tréð. þá var stiginn hringdas í garðinum (hora) og tréð dansaði með.

næst kom maturinn sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega í gengnum því hann var bara dæmigerður rúmenskur matur. vegna hita þurrkuðu gestir af sér svitann í gríð og erg með servíettum en eftir þessa veislu, sem flestir íslendingar eiga að venjast eftir hjónabandsvígsluna, var náð í stól þar sem brúður og brúðgumi skiptust á að næla blómum í brjóst brúðarmeyja, -sveina og tengdaforeldra. allt klappað og klárt og stillt upp í "skrúðgöngu". fremst fór jólatréð, því næst stúlka með handklæði á öxlinni og köku á fati og önnur með spegil. á eftir fylgdu brúðhjón og fylgdarlið, harmonikka, fiðla og sneriltromma og loks aðrir gestir. gengið var fylktu liði að kirkjunni þar sem athöfnin fór fram undir leiðsögn að mér sýndist þriggja presta. settar voru kórónur á brúðhjónin, gengið hring um altari eða borð á meðan kastað var hrísgrjónum yfir allt saman. eftir að vera gefin saman fór nýgift parið svo út fyrir kirkjuna þar sem þau slepptu hvítum dúfum og kakan var svo brotin enn á ný yfir höfði brúðarinnar og dreift meðal gesta. og til baka fór skrúðgangan að heimili brúðhjónanna þar sem við tók partý. jólatréð var svo skilið eftir við lóðarmörkin þar sem því var ætlað að standa í að minnsta kosti eitt ár. rúmenskt sveitabrúðkaup í örmynd séð með augum íslendings.

hitti svo fleiri ættingja, heillaðist enn meir af sveitahefðunum, vínbruggun, ostagerð, húsdýrum og ávaxtatrjám, sólbrann á vaði í á og fékk fínasta heimabrugg í langþráðum kulda vínkjallara afans.

kom heim í borgina um kvöldmatarleytið og held aftur út á lestarstöð eldsnemma í fyrramálið. svo margt sem þarf að sjá.

Friday, July 1, 2011

lóan er komin og farin

vorboðinn ljúfi flaug alla leið til rúmeníu til að heimsækja vínkonu sína sem ég kunni að sjálfsögðu mikils að meta. ég mætti með skilti á flugvöllinn (fagurmálað "GIÐA"), hélt í smá stund að þetta væri allt saman grín og að ég myndi þurfa að bíða allt kvöldið án árangurs. en svo kom lóa litla og ég dró hana með mér upp í strætó (að sjálfsögðu án þess að borga) því nær ómögulegt er að taka leigubíl frá flugvellinum án þess að vera svikinn eins og ég komst svo rækilega að í upphafi minnar ferðar.

við skáluðum í freyðivíni og fórum svo í sundlaugarpartý í buskanum þar sem glimmerhúðaðar skvísur í neon sundfötum dilluðu sér á sýningarpöllum. ekki alveg okkar tebolli svona eftir á að hyggja. næstu daga var mjög heitt og við hjóluðum, náðum okkur í smá tan, skoðuðum smá söfn, gyða fékk að kynnast sígaunum og flækingshundum og öllu því rúmenska sem ég er löngu hætt að kippa mér upp við. drukkum íslenskt brennivín með rúmenskum og japönskum vinum í hringlaga húsi, ætluðum til búdapest en hættum svo við, sigldum á gosbrunn og urðum rassblautar, borðuðum allskonar góðan mat, drukkum vatnsmelónulímonaði og rósavín í steikjandi hita. dönsuðum við brit-pop slagara og bröltum heim í morgunsárið með blóm í hárinu.

laugardagsmorgunn mættum við ósofnar á gara de nord og héldum af stað upp í fjöllin. fengum líkamlegt sjokk að stíga út úr lest í sinaia og vera komnar úr 40 stiga hita yfir í 10 gráður. fyrsta sem mætti okkur voru tveir agnarsmáir kettlingar sem skildir höfðu verið eftir við lestarteinana til að bíða ógeðfelldra örlaga sinna. þar sem okkar annars ísköldu hjörtu bráðna aðeins þegar gamalt fólk eða dýr eiga í hlut gátum við ekki skilið þá eftir heldur kúrðu þeir í fanginu á okkur þar til við komum að stórri höll en þá fundum við þeim stað í hallargarðinum og vonuðum að þeir myndu finna sér eigendur í nágrenninu. höllin hins vegar var hin ótrúlegasta! fyrsta evrópska höllin með rafmagn og innihélt hún því rafmagnsljósakrónur, lyftu og fleira rafmagns-kyns. þar voru allskonar lúxus herbergi eins og te-herbergi í austurlenskum stíl, reyk-herbergi með vatnspípum í tyrkneskum stíl, tónlistar-herbergi með flygil, sembal og hörpu svo eitthvað sé nefnt. smá myndir:





keyptum svo ljótar kitch dýrastyttur í safnið og hoppuðum aftur upp í lest. út á næsta stoppi sem var busteni sem er staðsett í vægast sagt dramatískum fjöllum og trónir risavaxinn kross á fjallstoppi yfir bænum. vakti smá óþægilega tilfinningu hjá mér en ég held að gyða hafi verið gjörsamlega að fríka út þann tíma sem við eyddum í viðkomandi bæ. fórum að skoða kirkju sem var inni í skógi og mættum á leiðinni skógarbirni að gæða sér á kanínu við göngustíginn. nei ok það var sagan sem ég vildi að ég gæti sagt en í raun var að koma stormur þegar við lögðum af stað inn í skóginn og við vorum svolítið stressaðar eftir "VARÚÐ HÉR ERU MARGIR BIRNIR!" skiltin svo þegar við töldum okkur sjá eitthvað órætt í fjarska sem hreyfðist hlupum við til baka og rétt náðum inn á twin peaks-fjallakofa-veitingastað áður en stormurinn skall á með látum.



gistum í heimahúsi sem er algengt á stöðum sem þessum, en utanfrá leit húsið út fyrir að vera í eigu krúttkonu með blómum skreytta verönd og dúllerí. okkur mætti hins vegar hinn undarlegasti maður sem var appelsínugulur á litinn með gullkeðju um hálsinn en skrýtnast var hárið sem var aflitað og rakað stutt fyrir utan örþunnan topp að framan sem sveigðist í fíngerðan boga fram á ennið. hann vísaði okkur á herbergið sem við fengum sem var í öllum regnbogans ósmekklegu pastellitum, greinilega mjög vel útpælt með glitrandi gegnsæar gardínur og tilgangslausa skrautmuni. rúmið var svo klætt bláum satínrúmfötum með rósamunstri. ég var svo þreytt eftir síðustu daga að ég svaf eins og ungabarn en ég held að gyða hafi ekki sofið mikið af ótta við að appelsínuguli maðurinn myndi byrla okkur svefnlyf og ræna okkur í mansal.

það gerðist hins vegar ekki og við héldum til brasov morguninn eftir. þar neyddumst við til að hoppa í tvær búðir til að kaupa okkur peysur því það var enn svo kalt. gyða var nú þegar komin í fínustu snjóhvíta og appelsínugula hlaupaskó. borðuðum serbneskar pylsur og tókum svo rútu til bran en þar er hinn margumtalaði drakúlakastali staðsettur. mjög fín miðaldabygging en því miður voru húsgögn af skornum skammti og frá hinum ýmsu tímabilum svo heildarmyndin var ekkert frábær. aftur heim til búkarest.

síðustu dagana gerðum við svo grínkaup í second-hand búðum og eignuðumst gersemar á 80-200 kr, fórum á ódýrasta ruslaklúbb búkarestborgar þar sem fylgdi hálfur gin og tónik með 200 kr bjórnum. ég fylgdi svo gyðu út á flugvöll þar sem við ræddum 2-3-toppur klippingar á karlmönnum og ég laumaði allskonar dóti í töskuna hennar til að létta á minni þegar þar að kemur.

hef loksins látið undan og fjárfest í flugmiða en leið mín liggur til feneyja 17. júlí. svo barselóna og amsterdam. elsku námslán, TAKK FYRIR AÐ VERA TIL.

ps. gleymdi að taka fram að ég talaði við alþjóðafulltrúa skólans og krafðist erasmus-nemendasýningar sem við svo viðeigandi náðum að smella upp á sjálfan 17. júní.

Sunday, June 12, 2011

plastic rain clothes

það vantar heitt vatn í eldhúskranann minn í dag. gullfiskaheilanum mínum er búið að takast að gleyma því að minnsta kosti fimm sinnum sem hefur orsakað vatn og kaffi ítrekað upp um alla veggi. (því ef skrúfað er frá spýtist mikið loft út um kranann..)

annars hef ég ekki margt að segja, ég elska nýja hjólið mitt


og ég bíð spennt eftir að fá gyðu í heimsókn


byrjuð að plana heimferð sem verður vonandi svona:
- ég og ana maria förum til feneyja í 3 daga á tvíæring og í almennan lúxus
- förum svo saman til barselóna í nokkra daga þar sem hún hittir spænskan vin og ég heimsæki elsku hrönn
- þar skilja leiðir og ég held ein til amsterdam í 3 daga eða svo
- svo bara, uhm heim?

veit ekki með ykkur en mér finnst þetta allavega snilldarplan!

hér er svo smá sýnishorn af því sem ég er búin að vera að gera í skólanum:

aquaforte-prent + stensill og sprey
þetta fékk ég að gera í staðinn fyrir að fara í bóklegu kúrsana sem voru allir á rúmensku. stórgott.

og eitt vídjó sem varð til fyrir tilviljun einn föstudagseftirmiðdag í garðinum:

Monday, May 30, 2011

borða. drekka. njóta.

ó rúmenska sól hvað ég elska þig áður en þú verður 50 gráður.

bjó til eitt vídjó með erasmus vinkonum mínum sem lítur óvart svona út:
úps

hér hefur margt skemmtilegt gerst síðustu daga. matarboð, brotinn stóll og hlátur undir borði, sýna list á annarra manna listasýningum, eftirpartý með allskonar hljóðfæraleik og snúningar á dansgólfum.

síðasta fimmtudag vaknaði ég eldsnemma, gaf gullfiskunum mínum morgunmat sem þeir eiga ekki annars að venjast og hljóp út á gara de nord. íslenskt-lettneskt-pólskt föruneyti á leið til fjallabæjarins brasov. ekki þau bestu í ferðaplönum en við vorum svo svöng þegar við komum að við byrjuðum á að borða, fórum svo að rótum fjallsins þar sem nafn bæjarins stóð reist hvítum hollywood stöfum til að taka vagn upp á topp og njóta útsýnis með freyðivín en þá hafði síðasta ferð nýlagt af stað. fórum þá að skoða svörtu kirkjuna sem var alls ekki svört en hún var víst svört eftir bruna sem var einu sinni í borginni (segi ég af leti án þess að staðfesta þær heimildir) og var svo þrifin. hún var líka lokuð en mjög fín að utan samt sem áður. við röltum þó og gengum strada sforii sem þýðir reipis-gata (mjög asnalegt á íslenskri tungu) en hún er 82 metra löng með háa húsveggi báðum megin og aðeins 1.32 metra breið sem þýðir að hægt er að snerta báða veggi meðan maður gengur hana. kíktum svo í gamalt-dót-búð og fengum okkur ís og bjór (ekki í búðinni samt). tókum rútu til baka sem var klukkustund fljótlegra en lestin en án möguleika til að standa upp og teygja úr sér. ef þefskyn mitt var ekki að leika mig grátt þá get ég svarið að bílstjórinn kveikti sér í einni vænni og grænni við stýrið þegar við nálguðumst búkarest.

á laugardaginn var svo opinn dagur listaháskólans. hönnunardeildin er í byggingum sem liggja í hring og skartar rosa fínum garði í miðjunni með skúlptúrum nemenda. þar var slegið upp tjöldum og básum með allskonar fínu til sýnis og sölu í boði nemenda, byggingarnar voru opnar til að skoða aðstöðu, börn gátu litað og málað og hægt var að blása gler fyrir smápening. fullur garður af fólki frá morgni til kvölds, músík, bjór og grill. FRÁBÆRT PARTÝ sem LHÍ gæti lært eitthvað af.

um kvöldið var svo árlegt ball arkitektúrskólans en það er einn heitasti viðburður ársins hér í borg. þar er alltaf þema og við maria settum blóm í hárið og fórum sem hippar.

núna er svo síðasta vikan í skólanum áður en kemur að sýningum og prófum. til stóð að allir erasmusnemendur héldu sýningu saman næsta mánudag en nú kom í ljós að skólagalleríið er víst ekki laust, hvernig sem það fór framhjá alþjóðafulltrúanum.., og því gæti svo farið að við höldum sýninguna í í gallerí eyjafjallajökull því íbúðin mín er fátæk að húsgögnum og hentar ágætlega til svona uppátækja. neyðin kennir naktri konu...þið vitið. velkomin til rúmeníu.

Sunday, May 15, 2011

sometimes, reality is the strangest fantasy of all

á ben frost voru engir íslendingar. ben sjálfur var samt hress og spurði mig oft hvort það væri ekki gaman. sem það var en ég náði ekki að draga neinn vin með mér svo ég fór heim beint eftir tónleika. í mestu rigningu sem ég hef augum litið. mjög viðeigandi eftir músík kvöldsins þó.

8. maí var bekkurinn með sýningu á silkiprentmyndum. komst að því að tveimur vikum fyrr hafði minn hópur nú þegar sýnt prentin á rockolective hátíð í nýlistasafninu og selt eitt prent á 60 evrur. undarlegt. en gaman. seldum svo víst meira á opnuninni og er óskandi að skólinn láti þessa peninga ekki renna í eigin vasa heldur láti okkur njóta góðs af. það er samt ekki sjálfgefið hér í borg skal ég segja ykkur.

rigningardagar sem fylgdu á eftir voru ekki þeir skemmtilegustu en ég ákvað þó að bregða mér í karakter og aðstoða bekkjarsystir mína við gerð ljósmyndaseríu úr kvikmyndinni blow up. þar sýndi ég frábæra leikræna takta en kennari úr skólanum var mótleikari minn sem verður að viðurkennast að var smá vandræðalegt, sérstaklega í ljósi þess sem ég var hávaxnari en hann og þurfti því að beygja mig til að virðast minni. útkoman var á þessa leið:





meðan veðrið var vont fór ég í bíó, var heima að mála eða á opnunum að skála. en sólin kom og allir fóru aftur út að leika. hjóla í sólinni eða sitja í garði með góðu fólki. núna fer þó önnin að klárast og prófin að byrja sem í mínu tilfelli verður með einhverju sérhönnuðu sniði býst ég við. prófatíð er út júní en eftir það hef ég (næstum) ákveðið að halda íbúðinni minni út júlí líka og fara í ferðalög um landið. þarf að sjá meira af fjöllunum og svartahafinu.

í gær horfði enginn á júróvísjón. og ég kaus ekki vini sjonna. það var safnanótt sem þýðir að öll söfnin og lestirnar eru opin alla nóttina svo allir voru úti og það var músík og fjör. lenti svo í fyndnu atviki á barnum síðar um kvöldið en þá hitti ég rúmenskan mann sem var uppalinn í svíðþjóð, hann var á barnum með dönskum manni og fyrr um kvöldið höfðu þeir hitt finna og norðmann. höfðu einmitt verið að ræða sín á milli að þeir þyrftu bara að rekast á íslending til að vera komnir með alla skandinavíu. ég vakti því einskæra lukku hjá þessum mönnum en ég held ég geti sagt með vissu að ég sé eini íslendingurinn búsettur hér í borg. allavega á mínum aldri.

í dag er aftur sól og 25 gráður. nokkuð gott.

Tuesday, May 3, 2011

crazy japan in condom panic


mér líður pínulítið svona í dag.

að baki eru rosa góðir dagar, útivera, músík, sól, bjór og góður félagsskapur.

1. maí er alltaf mikið partý við svartahafið á stað sem heitir vama veche en þar er spilað eitthvað músíksull, fólk tjaldar, grillar, dansar og tilheyrandi. ég var ekki mjög spennt fyrir því í fyrstu en ákvað að skella mér með skiptinemastelpunum. við fórum með tveimur strákum í farartæki á stærð við póstbíl sem var innréttaður með einni dýnu og sængum og teppum. þar sátum við fimm stelpur í hrúgu að reyna að sulla ekki niður bjór á meðan afturhurðin sveiflaðist fram og til baka því ekki var hægt að læsa henni. fyrirtaks ferðamáti fyrir 4 klukkustunda ferðalag!

ég ætla ekkert að reyna að blekkja ykkur og segja að ég hafi verið í bullandi sól og sjósundi en það sem við tók var eitthvað svipað og íslensk útilega. ullarpeysa, varðeldur og hafgola. mér áskotnaðist eitt stykki rottweiler hvolpur eins og þessi

sem var félagi minn það sem eftir lifði kvölds en fann svo eigandann daginn eftir. mátti samt eigann ef ég vildi. aaaiii.

mánudagurinn var langur og skrýtinn en við þurftum að bíða til sólarlags til að forðast umferð og lögreglur á bílnum. þá skriðum við aftur í bílinn eins og hermenn á leið heim úr stríði, rennandi blaut eftir alvöru þrumuveður.

í dag er ég því að gera mitt besta til að verða venjuleg aftur og koma mér að verki.

komst að því að ben frost er að spila á control club á laugardaginn sem gaf mér pínulitla vonarglætu um að hitta kannski íslending eða tvo hér í borg.

Tuesday, April 26, 2011

borðaðu grasið þitt með ljós í hjarta

kristur er endurfæddur, mikið rétt og allir fyllast ljósi og kærleik og borða rosalega mikinn mat.

allt fram á laugardag hélt ég að ég myndi eiga frekar einmana páska í búkarest sem hljómaði samt ekki svo illa fyrir utan páskaeggjaleysi. eggið er enn á sveimi einhversstaðar því þar sem ísland er ekki í evrópusambandinu þarf pakkinn að fara á spes pósthús í úthverfi búkarest áður en storkurinn flytur það til mín.

á laugardagsmorgun vaknaði ég í sólinni og fékk páskaboð frá george. við pökkuðum í snatri og héldum á gara de nord þar sem við tókum lest til heimabæjar hans focsani. foreldrar hans tóku brosandi á móti okkur á lestarpallinum og við fórum á æskuheimilið hans sem var mjög fínt rúmenskt heimili. pabbi hans talar smá ensku en mamma hans enga svo helgin fór fram með annars konar tjáningarmáta en yfirleitt tíðkast en það er hægt að komsast ansi langt á takk og brosi.

áður en lengra er haldið skal taka fram að eftir tvær vikur hér í borg tók ég ákvörðun um að eftir ár án kjöts skyldi ég nú fara alla leið og kynnast rúmenskri menningu sem best en rúmensk matargerð byggist nær eingöngu á kjötmeti.

næst kem ég því að matartímanum. við byrjuðum á hefðbundinni nokkurs konar kjötsúpu, því næst kom sarmale

en það er hakkað kjöt og grænmeti og hrísgrjón vafið inn í lauf eða kálblöð. eftir það kom einhvers konar kæfa (þarna var ég löngu orðin södd) sem er svipuð og paté sem allavega mamma mín gerir fyrir jólin, og loks brauðkennd kaka með núggatiröndum. allt bragðaðist þetta mjög vel!

eftir mat keyrðum við gegnum pínulítið þorp, fórum út og skoðuðum vatn við eina virkjun, fórum í klessubíla í litlu tívolí og svo heim í meiri mat. á miðnætti fóru allir úr þorpinu í kirkjugarðinn með kerti að ná í ljós fyrir páskahátíðina, sem þau báru svo heim og létu loga í smá stund. mjög falleg hefð.

páskadagsmorgunn hófst á heitri mjólk með hunangi, fallegum rauðum lituðum eggjum sem sem fylgir önnur lítil hefð en tvær manneskjur þurfa að taka sitthvort eggið, önnur segir "kristur er endurfæddur", hin svarar "já það er rétt" eða eitthvað á þá vegu og svo slærr hinn fyrri með sínu eggi í hitt og reynir að brjóta það. svo öfugt. með þessu var svo meiri kaka.

fórum í ferðalag í lítið þorp þar sem amma og afi george búa og keyrðum gegnum fullt af litlum pastelmáluðum sveitaþorpum með sígauna og hesta og önnur fínheit. amman og afinn búa í rosa sætu hefðbundnu rúmensku húsi með munstruð teppi og dúka og húsdýr, hlöðu, kamar og tilheyrandi. enn og aftur borðað mjög mikið. eftir mat fórum við svo að skoða einn garð í kringum safn tileinkað tónskáldinu george enescu (en svo skemmtilega vill til að í búkarest bý á á str. george enescu nr 40) og svo löbbuðum við í skóginum og óðum í á sem var mun heitari en íslenku lækirnir...á leiðinni til baka stoppuðum við í nokkrum bæjum, meðal annars einum þar sem býr fullt af gömlu fólki því þar eru allskonar uppsprettur af vatni með lækningamátt. eftir að hafa smakkað öll vötnin sem voru um 10 talsins og hvert öðru saltara og skrýtnara, sem við ýmist spíttum út úr okkur eða píndum ofaní okkur því það var talið gott fyrir augun, komumst við að því að síður en svo voru þau öll ætluð til að drekka heldur eins og í augnvatnstilfellinu ætluð til að þvo augun með og lækna. og auðvitað borðuðum við svolítið meira þegar við komum heim.

mánudagsmorgunn hófst á morgunmat, svo sóttum við annan george, keyptum ís og keyrðum svo útúr bænum að skoða lítil þorp og fjöll og læki. enduðum á stað þar sem er að finna náttúruleg gös sem koma upp úr jörðinni og þar kveikir fók eld. ef maður rótar í sandinum stækkar eldurinn. mjög skrýtið. en sígaunar og allskonar "skrýtið" fólk kemur þangað og grillar mat en það er ekki mjög heilsusamlegt. heim að borða meira. allskonar mat og kirsuberjaköku mmmm.

send heim með kossum, matarpakka frá foreldrum og heimboði í framtíðinni. frábær páskahátíð!

í dag braut ég svo upp póstkassann og fékk einhvern tæknikall í blokkinni á móti til að setja upp nýjan lás fyrir mig. keypti handa honum kippu af bjór í staðinn.